Um Alþingi

Til að heimsóknin í Skólaþing verði sem árangursríkust er gagnlegt að vita svolítið um hvernig Alþingi starfar. Tekin hafa verið saman nokkur hugtök sem gott getur verið að kunna skil á.

Alþingiskosningar

  • Alþingiskosningar eru alla jafnan haldnar fjórða hvert ár. Þá velur kjósandi einn stjórnmálaflokk í leynilegum kosningum og merkir við hann í kjörklefanum. Að kosningum loknum taka þeir 63 þingmenn sem kosningu hlutu sæti á Alþingi.
  • Þeir sem ekki geta mætt á kjörstað á kjördegi geta áður greitt atkvæði utan kjörfundar. Kjörskrá ræður hverjir mega kjósa á hverjum stað og hefur hver kjósandi eitt atkvæði. 
  • Á kjörstað fær kjósandi afhentan kjörseðil og jafnframt er þátttaka hans í kosningunum skráð. Þannig er tryggt að hver kjósi aðeins einu sinni. Kjósandinn fer með kjörseðilinn í sérstakan kjörklefa þar sem hann getur annaðhvort merkt við listabókstaf þeirra stjórnmálasamtaka sem hann vill kjósa eða skilað auðu ef honum hugnast enginn listi. Þannig er tryggt að kosningarnar séu leynilegar.
  • Seðlarnir verða ógildir ef merkt er við nöfn eða fleiri en einn lista. Þó er kjósandanum heimilt að strika út nöfn og breyta nafnaröð á lista þeirra stjórnmálasamtaka sem hann kýs. Kjósandi fer síðan með seðilinn og stingur honum í sérstakan kjörkassa.

Atkvæðagreiðslur

  • Atkvæðagreiðslur um mál á Alþingi gilda ekki nema að minnsta kosti helmingur þingmanna sé viðstaddur hana. Forseti Alþingis gefur hljóðmerki sem heyrist um allt þinghúsið og lætur þannig vita af atkvæðagreiðslunni. Hægt er að greiða atkvæði með eða á móti eða velja um að sitja hjá en eingöngu fyrri möguleikarnir tveir eru teknir gildir við talningu atkvæða.
  • Ef atkvæði með og á móti frumvarpi eru jafnmörg er talað um að frumvarpið falli á jöfnum atkvæðum og verður ekki að lögum. Atkvæðagreiðslur fara einkum fram með rafrænum hætti. Atkvæðagreiðslan má líka fara þannig fram að þingmenn tjái afstöðu sína með því að rétta upp hönd og enn fremur geta þingmenn krafist nafnakalls og spyr þá þingforseti hvern og einn þingmann hvort hann sé með eða á móti máli. Þingmenn geta líka komið upp í ræðustól og gert grein fyrir atkvæði sínu. Þingforseti getur lagt til að mál sé samþykkt án atkvæðagreiðslu ef enginn þingmaður mótmælir. Allar niðurstöður eru birtar innan fárra sekúndna á netinu og síðar prentaðar í Alþingistíðindum.
  • Þingmál má bera undir atkvæði án þess að um það fari fram umræður ef tveir þriðju fundarmanna samþykkja tillögu um slíkt.

Ávarpsorð í þingsal

  • Í þingsalnum tala menn úr ræðustól, beina ræðu sinni til forseta Alþingis og ávarpa hann til dæmis „frú forseti”, „herra forseti” eða „hæstvirtur forseti”. Í ræðu skal ekki ávarpa einstaka þingmenn eða beina máli til þeirra beint, heldur alls þingheims. Kenna skal þingmenn við kjördæmi eða ávarpa þá fullu nafni og nota ávarpið „háttvirtur”. Ráðherrar eru ávarpaðir sem hæstvirtir ráðherrar, til dæmis „hæstvirtur forsætisráðherra”.

Fastanefndir Alþingis

  • Kosið er í fastanefndir Alþingis í upphafi hvers kjörtímabils. Meginhlutverk þeirra er að taka til efnislegrar skoðunar þau lagafrumvörp og þingsályktunartillögur sem lagðar eru fram á Alþingi og vísað er til fastanefndanna. Fastanefndir Alþingis eru 8. Þær eru allsherjar- og menntamálanefnd, atvinnuveganefnd, efnahags- og viðskiptanefnd, fjárlaganefnd, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, umhverfis- og samgöngunefnd, utanríkismálanefnd og velferðarnefnd.
  • Heiti nefndanna sýna yfirleitt hvaða málefni heyra undir hverja nefnd. Þannig er t.d. fjallað um umhverfis- og samgöngumál í umhverfis- og samgöngunefnd. Í allsherjar- og menntamálanefnd er fjallað um dóms- og löggæslumál, mannréttindamál, ríkisborgararétt, neytendamál, málefni þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga og jafnréttismál, svo og um mennta- og menningarmál og vísinda- og tæknimál.

Forseti Alþingis

  • Á fyrsta fundi hvers kjörtímabils kýs þingið forseta Alþingis. Einnig eru kjörnir sex varaforsetar. Hlutverk forseta er meðal annars að stjórna fundum Alþingis, bera ábyrgð á rekstri þess og kom fram fyrir hönd Alþingis á opinberum vettvangi, bæði hérlendis og erlendis.

Frumvarp

  • Frumvarp til laga er tillaga til formlegra breytinga á gildandi lögum eða tillaga til nýrra laga. Frumvörp geta snúist um það að breyta einu orði í ákveðnum lögum upp í að breyta heilum lagaköflum, setja ný lög frá grunni og/eða að fella út áður samþykkt lög. Frumvarp er stjórnarfrumvarp ef ráðherra sem málið heyrir undir flytur það, annars er það þingmannafrumvarp. Einstaka sinnum er frumvarp flutt af þingnefnd.

Hagsmunahópar

  • Orðið hagsmunahópur er oft notað um þrýstihóp sem á hagsmuna að gæta í ýmsum málaflokkum, til dæmis á sviði mannréttinda, menningarmála og atvinnulífs. Hagsmunaaðilar koma oft á nefndarfundi Alþingis til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

Hlutverk Alþingis

  • Meginverkefni Alþingis er lagasetning. Jafnframt því að fara með lagasetningu fer Alþingi með fjárstjórnarvald, það er skattlagningu og fjárveitingavald, auk þess sem það er vettvangur fyrir mikilvægar stjórnmálaumræður og hefur á hendi eftirlit með störfum ríkisstjórnar. 

Kjördæmaskipan

  • Í kosningum er landinu skipt í kjördæmi og á hver kjósandi að kjósa þar sem hann hefur lögheimili. Ísland skiptist í sex kjördæmi, þrjú eru á höfuðborgarsvæðinu og þrjú á landsbyggðinni. Fjöldi þingsæta sem bundinn er við einstakt kjördæmi getur breyst lítillega við hverjar kosningar þar sem tillit er tekið til breytinga á fjölda kjósenda í kjördæmi.Kjördæmi.

Kosningarréttur

  • Kosningarréttur er réttur fólks til þess að taka þátt í lýðræðislegum kosningum. Í dag er kosningaaldurinn 18 ár og hefur verið það frá 1984. Frá því kosningarréttur varð almennur 1915 hefur kosningaaldurinn farið lækkandi.

Lýðræði

  • Lýðræði byggir á þeirri hugmynd að uppspretta valdsins sé hjá fólkinu. Lýðræði getur verið með ýmsu móti. Á Íslandi er svokallað fulltrúalýðræði. Í því felst að fólkið framselji meðferð þess valds í hendur fulltrúa sinna sem mynda þing landsins. Þingmenn fara sameiginlega með æðstu völd í þjóðfélaginu en sæta síðan dómi kjósenda í kosningum á fjögurra ára fresti.
  • Í stjórnarskrá er einnig kveðið á um lýðræðislega kosningu forseta Íslands. Kosningarréttur er þannig undirstaða lýðræðisskipunarinnar í landinu en skoðana- og tjáningarfrelsi og félaga- og fundafrelsi eru einnig mikilvæg lýðræðisréttindi til að tryggja borgurum landsins þátttökurétt í málefnum þjóðfélagsins.

Lög

  • Frumvarp sem þingið samþykkir er sent ríkisstjórninni sem lög frá Alþingi. Lög taka ekki gildi fyrr en þau hafa verið undirrituð af forseta Íslands og birt í Stjórnartíðindum.

Nefndarformaður

  • Fastanefndir kjósa sér formann sem boðar til funda í nefnd og stýrir fundum hennar. Hann stjórnar meðal annars hvenær mál eru tekin fyrir á fundi og hvernig afgreiðslu þeirra er háttað. 

Ríkisstjórn

  • Þingflokkar stjórnarflokkanna velja ráðherra í ríkisstjórn. Ríkisstjórnin er leiðandi í störfum þingsins, undirbýr löggjöfina og fær heimild til að útfæra lögin nánar með reglugerðum. Hún getur líka brugðist við ágreiningi við þingið með því að rjúfa það og efna til kosninga. 

Stjórnarandstaða

  • Þeir flokkar sem eru í stjórnarandstöðu hafa aðra pólitíska sýn en ríkjandi stjórn. Eitt helsta verkefni stjórnarandstöðuflokka er að veita ríkisstjórninni aðhald, til dæmis með því að leggja fram fyrirspurnir til ráðherra um ýmis málefni.

Stjórnmálaflokkar

  • Eftir alþingiskosningarnar 2021 eiga átta stjórnmálaflokkar sæti á Alþingi: Flokkur fólksins, Framsóknarflokkurinn, Miðflokkurinn, Píratar, Samfylkingin, Sjálfstæðisflokkurinn, Viðreisn og Vinstri hreyfingin – grænt framboð. Fólk skiptist í stjórnmálaflokka eftir stefnum, hagsmunum og sameiginlegum skoðunum og hugsjónum.
Merki flokks fólksins Flokkur fólksins 6 þingmenn 
Framsókn Framsóknarflokkurinn 13 þingmenn
 Miðflokkurinn  Miðflokkurinn 3 þingmenn
Píratar Píratar 6 þingmenn
Samfylkingin Samfylkingin 6 þingmenn 
Sjálfstæðisflokkur Sjálfstæðisflokkur 17 þingmenn
 Merki Viðreisnar  Viðreisn 5 þingmenn
Vinstri Græn Vinstrihreyfingin – grænt framboð 8 þingmenn

Sætisskipan í þingsalnum

  • Í upphafi hvers þings draga þingmenn tölusettar kúlur úr kassa um það hvar þeir eigi að sitja í þingsalnum. Þingmenn í sama flokki eða kjördæmi sitja ekki endilega saman eins og tíðkast erlendis.

Tillaga til rökstuddrar dagskrár

  • Er prentuð tillaga, venjulega frá stjórnarandstöðunni, um að vísa umræðumáli frá og taka fyrir næsta mál á dagskrá.

Umræður á Alþingi

  • Um umræður á Alþingi gilda reglur þingskapa. Við allar umræður er ræðutíminn takmarkaður en flutningsmaður, framsögumaður nefndar og ráðherrar hafa rýmri tíma en aðrir þingmenn. Við 2. umræðu um lagafrumvörp mega allir þingmenn taka eins oft til máls og þeir vilja en tali þeir oftar en tvisvar er tíminn takmarkaður við 5 mínútur.

Þingfundir

  • Alþingi heldur þingfundi að jafnaði fjóra daga í viku á þingtímanum. Þingfundir eru haldnir í þingsal Alþingishússins. Þingfundir eru opnir almenningi sem getur fylgst með þeim meðal annars á þingpöllum auk þess sem sjónvarpað er frá þingfundum og þeir eru sendir út á vef Alþingis.  

Þingflokksformaður

  • Formenn þingflokkanna sjá um ýmis verkefni sem tengjast stjórn þinghaldsins og störfum innan flokksins. Þeir eru milligöngumenn þingmanna síns flokks og forseta þingsins, svo og gagnvart öðrum þingflokkum og þingmönnum.

Þingræði

  • Í þingræði felst að þeir einir geti verið ráðherrar sem Alþingi eða meiri hluti þess vill styðja eða þola í embætti. Ríkisstjórn er því skylt að segja af sér ef samþykkt er tillaga um vantraust á hana á Alþingi. 

Þingsályktunartillögur

  • Alþingi getur lýst stefnu sinni eða ákvörðunum án þess að setja lög. Það er gert með þingsályktun sem felur oft í sér að skorað er á ríkisstjórnina að sjá um framkvæmd verkefnis, undirbúa löggjöf eða rannsaka tiltekið mál. Þær eru algengasta aðferð þingmanna við að koma stefnumálum sínum á framfæri.

Þrískipting ríkisvaldsins

  • Alþingi setur þjóðinni lög, sameiginlegar reglur sem öllum ber að fylgja.  Ríkisstjórnin, það er ráðherrarnir, sér um að lögin séu framkvæmd.  Dómstólar skera úr deilumálum ef upp kemur ágreiningur um lögin. 
  • Talað er um þrískiptingu valdsins í framkvæmdarvald, sem er ríkisstjórnin eða ráðherrarnir, löggjafarvald, það er Alþingi, og dómsvald, sem er í höndum dómstólanna.
  • Þrískiptingu ríkisvaldsins í framkvæmdarvald, löggjafarvald og dómsvald má rekja til kenninga franska stjórnvitringsins Montesquieus. Samkvæmt þeim á skipting ríkisvaldsins milli þriggja sjálfstæðra valdhafa að koma í veg fyrir að nokkur þeirra verði svo sterkur að hann geti svipt þegnana frelsi með ofríki og að eigin geðþótta.
  • Forseti Íslands er samkvæmt stjórnarskránni æðsti handhafi framkvæmdarvaldsins. Samkvæmt íslenskri stjórnskipan eru það þó ráðherrar ríkisstjórnarinnar sem fara með framkvæmdarvaldið og ráða framkvæmd þeirra mála sem forseta eru falin í stjórnarskránni. Ráðherrar bera ábyrgð á gerðum sínum gagnvart Alþingi. Ráðherrar eru þannig helstu handhafar framkvæmdarvaldsins en Alþingi hefur falið sveitarstjórnum að sjá um framkvæmd ýmissa málaflokka, undir eftirliti ráðherra. Má þar t.d. nefna rekstur grunnskóla. 
  • Samkvæmt stjórnarskránni fara Alþingi og forseti Íslands saman með löggjafarvaldið. Handhafar löggjafarvalds eru kosnir í almennum leynilegum kosningum. Öll lög sem Alþingi samþykkir skulu jafnframt hljóta staðfestingu forseta Íslands áður en þau taka gildi. 
  • Dómsvald er í höndum dómara og er aðgreining dómsvaldsins frá löggjafar- og framkvæmdarvaldi grundvallaratriði fyrir réttaröryggi í landinu. Alþingi setur lög sem dómstólum er skylt að dæma eftir, en dómstólarnir túlka lögin, óháð vilja annarra valdhafa, og leggja endanlegt mat á gildi þeirra. Þar á meðal úrskurða dómstólar hvort lög samrýmast stjórnarskránni. Dómstig í íslensku réttarkerfi eru þrjú, héraðsdómur, Landsréttur og Hæstiréttur Íslands. Öll mál fara fyrst fyrir héraðsdóm en síðan má skjóta úrlausnum héraðsdómstólanna átta til Landsréttar og eru úrlausnir hans endanlegar í flestum málum. Í sérstökum tilvikum og að fengnu leyfi Hæstaréttar Íslands má skjóta niðurstöðum Landsréttar til Hæstaréttar.