Vinna með málin

Á Skólaþingi er nemendum skipt í fjóra mismunandi þingflokka. Þingflokksmenn byrja á að fara á þingflokksfund þar sem þrjú þingmál eru rædd og farið yfir stefnu flokksins í þeim.

Fulltrúar frá öllum flokkunum fara á nefndarfund og fjalla um eitt mál af þremur og reyna að komast að niðurstöðu um það. Nefndirnar á Skólaþingi eru:

  1. Allsherjarnefnd 
  2. Menntamálanefnd
  3. Umhverfisnefnd

Á nefndarfundi er leitað álits hjá gestum sem eru með eða á móti málinu. Gestirnir birtast á tölvuskjá og nefndarmenn geta valið úr nokkrum spurningum til að leggja fyrir þá. Einnig kynna nefndarmenn sér umsagnir sem nefndinni berast og taka afstöðu til þess hvort nauðsynlegt sé að gera breytingar á málinu. Meiri hluti nefndarmanna þarf að vera sammála um að gera tillögur að breytingunum.

Á nefndarfundi þurfa þingmenn Skólaþings að berjast fyrir skoðunum síns flokks og leita málamiðlana. Þeir segja síðan frá niðurstöðum nefndarfundarins á næsta þingflokksfundi í sínum flokki.

Allir þingflokksmenn fara á þingfundi í þingsal þar sem mælt er fyrir málunum þremur. Á þingfundum er meðal annars mælt fyrir nefndarálitum og breytingartillögum. Á síðasta þingfundi ráðast úrslitin þegar atkvæði eru greidd um málin og þau afgreidd sem lög frá Skólaþingi eða felld.